Skólalok vorið 2020.

Skólaárið 2019-2020 stunduðu 83 nemendur nám við Tónfell, þar af voru 17 fullorðnir nemendur sem eru flestir í söngnámi, aðrir eru grunn-og menntaskólanemendur, grunnskólabörn eru um 70% af heildarfjölda nemenda.  Kennarar við skólann eru 8 og verður það svo einnig á komandi ári. Jonathan sem hefur leyst Charles af í vetur mun láta af störfum þar sem Charles er að koma til baka úr ársleyfi. Upplýsingar um kennara eru hér á heimasíðunni og bendi ég einnig á að þar er líka að finna skóladagatal og gjaldskrá.

Píanó og gítar eru sem fyrr vinsælustu hljóðfærin en einnig er kennt á bassa, slagverk, harmoniku, klarinett, þverflautu, blokkflautu, túbu og klassískan-og rythmiskan söng. Einnig er kennd tónfræði og líka forskóli fyrir nemendur í 1.bekk. 

Veturinn var í meira lagi skrýtin í kjölfar takmarkanna vegna covid. Frá miðjum mars til 4.maí varð veruleg skerðing á kennslunni vegna takmarkanna og var kennslu á yngsta stigi alveg hætt og þeir kennarar er kenna líka í Tóneg máttu ekki koma hér í hús. Einungis voru 3 kennarar sem máttu koma hér inn og var kennsludagurinn frá 9-12, þannig að það er alveg augljóst að þetta var mikill skellur. Sumir kennarar nýttu sér fjarkennslu og gerðu það með nemendum er það kusu en margir fengu enga kennslu þennan tíma  og til að koma á móts við tímamissi var felldur niður hluti skólagjalda.

Áfangapróf er 5 nemendur áttu að taka  hjá okkur í vor frestast til haustsins en hefðbundin stigspróf voru tekin og voru 6 nemendur er tóku hljóðfærapróf og 12 nemendur tóku stigspróf í tónfræði.

Engir tónleikar voru í vor þar sem við vildum leggja áherslu á hefðbundna kennslu þar sem margir höfðu misst mikið úr og ekki voru heldur hefðbundin skólaslit vegna fjöldatakmarkana sem en voru og eru í gildi. Nemendur fengu umsagnir og skýrteini afhent í síðustu kennslustundinni frá sínum kennara.

Nemendum og foreldrum er þakkað fyrir gott samstarf og skilning í vetur í hinu fordæmalausa ástandi sem skapaðist af völdum covid veirunnar, einnig fær hið frábæra starfsfólk skólans bestu þakkir fyrir góð og vel unnin störf.

Megi sumarið verða ykkur og okkur öllum farsælt og gott.


Svæði

Tónlistarskólinn í Fellabæ

Einhleypingi 2, 700 Egilsstaðir / Sími: 4 700 646 / Netfang: tonlistarskoli.fellabae@mulathing.is


Skólastjóri: Drífa Sigurðardóttir